top of page
Search
  • Writer's pictureEva Magnúsdóttir

Ímynd fyrirtækja mikilvægasta eignin

Ímynd fyrirtækja er mikilvægasta eignin: Eins og eldur í sinu um heimsbyggðina

Vefsíðan www.livefromiceland varð á skömmum tíma stærsti ferðavefurinn á Íslandi og er það ennþá af og til mestmegnis vegna þeirra eldgosa sem sýnd hafa verið í beinni útsendingu frá 2010 þegar eldgosið hófst í Eyjafjallajökli. Tíu milljónir manna hafa flett í kringum 40 milljónum síðna af þeim 12 vélum sem boðið eru upp á núna. Íbúar örfárra landa í heiminum  hafa ekki skoðað íslenska náttúru í beinni eða eldgos að verki. Væntingar fólks til síðunnar eru þær að þegar nýtt eldgos hefst á Íslandi þá verði það sýnt í beinni útsendingu á vefnum. Eins skemmtilegt og verkefnið var þá var þessi uppsetning á vefmyndavélum í raun prófraun á það hvernig mögulegt er að byggja upp alþjóðlegt vörumerki á hagkvæman hátt á mjög stuttum tíma ef ytri aðstæður eru nýttar til fulls.

Ímynd fyrirtækja er mikilvægasta auðlind þeirra og utanaðkomandi  atvik geta haft mikil áhrif á hana. Mikilvægt er að stjórna uppbyggingu vörumerkisins og gæta þess að það verði ekki fyrir skakkaföllum og gott samstarf við fjölmiðla er gulls ígildi. Það er ekki hægt að breiða yfir slæman rekstur og illa meðferð á starfsfólki með glansmynd auglýsinganna. Sterk vörumerki eignast þau fyrirtæki sem vinna bæði vel inn á við sem út á við og vinna markaðs- og kynningarvinnuna sína vel til lengri tíma.

Reyndist hin besta landkynning

Uppbygging á vörumerkinu ,www.livefromiceland.is sem á hraða ljóssins varð eitt þekktasta vörumerki Íslands gekk nokkuð hratt fyrir sig þökk sé aðstæðum og áhuga ferðamanna á eldgosinu. Aldrei fyrr höfðu bæði Íslendingar og útlendingar átt kost á að horfa á náttúruhamfarir á Íslandi í beinni útsendingu. Margir voru til að byrja með óhressir með að eldgosin væru sýnd og óttuðust að ferðamenn myndu ekki vilja koma til landsins. Tölur yfir fjölda ferðamanna á undanförnum árum sýna að eldgosin reyndust hin besta landkynning á endanum.

En hver er sagan á bak við ævintýrið og hvernig tókst að byggja upp alþjóðlegt vörumerki frá Íslandi á svo skömmum tíma, vefsíðu sem allur heimurinn fer fyrst inn á þegar vá ber að höndum.

Áhugi og eldmóður

Ævintýrið hófst daginn eftir að gosið hófst í Eyjafjallajökli hinn 21. mars 2010. Á neyðarstjórnarfundi ákvað þáverandi framkvæmdastjórn Mílu, sem ég var partur af, að setja upp vefmyndavél á gosstöðvunum sem sýndi lifandi myndir af gosinu á jöklinum á heimasíðu sinni. Ákvörðunin var tekin af áhuga og eldmóði og starfsmenn fyrirtækisins gengu í takt við að útfæra verkefnið. Frá upphafi var verkefninu ætlað að styrkja ímynd fyrirtækisins og nýta þjónustu þess í þágu almennings, nokkurs konar samfélagsábyrgð þar sem fjarskiptatæknin var nýtt í þágu vísinda og almennings. Okkur óraði þó alls ekki fyrir þeim vinsældum sem útsendingin olli.

Eins og eldur í sinu

Fréttatilkynning var skrifuð á bæði íslensku og ensku og send út á langan lista fjölmiðla heima og erlendis. Starfsmenn voru síðan virkir á samfélagsmiðlunum, og fréttin um eldgosið fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina.  Vinsældir myndavélanna voru hreint út sagt ótrúlegar og fjöldi fólks frá ýmsum löndum var í sambandi við fyrirtækið vegna vélanna, bæði til að spyrjast fyrir um gosið og til að þakka fyrir þessa frábæru þjónustu. Margar stærstu fréttastöðvar heims höfðu samband og óskuðu eftir leyfi til að nota myndir frá vélunum á sínum fréttasíðum. Erlenda umferðin sló öll met og vefsíðan var orðin stærsta heimasíðan á Íslandi samkvæmt vefmælingum Modernus. Hún var að vísu ekki uppsett fyrir alla þessa umferð og setti því netþjóna á hliðina og sogaði alla útlandaumferð þjónustuaðilans.

40 milljónir

Vefurinn varð fljótlega ein besta landkynning sem Ísland hefur eignast.  Nú rúmum fjórum árum síðar hafa yfir 10 milljónir manna horft á eldgos og íslenska náttúru í beinni útsendingu og yfir 40 milljón síður hafa verið skoðaðar. Ferðamenn nota vélarnar til þess að fylgjast með veðri og ferðaþjónustuaðilar nota þær einnig sem viðmið. Heyrst hefur um aðila í útlöndum sem nota vefmyndavélarnar sem skjáhvílur. Þannig geta útlendingar látið sig dreyma um að ferðast til Íslands löngu áður en af ferðinni verður.

Vafasamar auglýsingar

Á næstu árum var vélum bætt við á vinsæla ferðamannastaði eins og Reykjavíkurtjörn, Jökulsárlón, Gullfoss, Geysi og Akureyri og fleiri staði, alls 12 vélum. Að auki var bein útsending frá Íslenskum áramótum. Árið 2012 var vefmyndavélunum komið fyrir á nýrri vefsíðu, www.livefromiceland.is þar sem vefmyndavélarnar hafa verið sýnilegar síðan. Hannaður var nýr vefur og ákveðið að hefja samstarf við Google Adsense og birta auglýsingar á þar til gerðum svæðum. Við lentum í tímabundnum vandræðum með vafasamar auglýsingar sem slæddust inn á síðuna. Okkur þótti það ekki hæfa ímynd vefsins og brugðum á það ráð að loka fyrir þar til búinn var til filter sem tilgreinir hvaða auglýsingar mega birtast á vefnum.

Fréttatilkynningum um uppsetningu síðunnar var dreift  á fjölda erlendra miðla, sem miðuðu að  því að  ná tímabundnum  sýnileika. Einnig voru skrifaðar greinar  fyrir  mismunandi  miðla. Farið var í skipulagða herferð á google.com og facebook.com og borðaauglýsingar á samfélagsmiðlum.

Ein af 25 áhugaverðustu vefmyndavélum EarthCam

Tvisvar hefur EarthCam valið vefmyndavélina á Jökulsárlóni sem eina af 25 áhugaverðustu vefmyndavélunum, bæði 2011 og 2013. Sigurvegararnir voru valdir úr þúsundum tilnefninga. Verðlaunin voru viðurkenning á þeirri vinnu sem lagt hafði verið út í og sýndi vel hversu mikla athygli vélarnar hafa vakið hér heima og ekki síst erlendis.

Ímynd og samfélagsmiðlar

Það sést á þessari frásögn að það þarf ekki alltaf að eyða milljónum í auglýsingar til að byggja upp vörumerki. Það tókst með samhentum aðgerðum, notkun samfélagsmiðla í bland við auglýsingar á netinu – fréttaskrif og mikla og góða samvinnu við fjölmiðla að byggja upp heimsþekkt vörumerki á stuttum tíma. Aðgerðaráætlun í markaðsmálum tvinnaði þarna saman notkun á ýmsum miðlum, dagblöðum, sjónvarpi, útvarpi, vefmiðlum og ýmsum samfélagsmiðlum eftir því sem við hæfi þykir. Skipulag notkunar á samfélagsmiðlum getur aðstoðað fyrirtæki og hagrætt hjá þeim í markaðsmálum, sé rétt að því staðið.  Mikilvægt er að skoða kosti heildrænnar markaðssetningar og samþætta notkun miðla.

Samfélagsábyrgð

Uppsetning vélanna var ein leið til að sýna samfélagslega ábyrgð, þjónusta fyrirtækisins var nýtt til að láta gott af sér leiða til vísindasamfélagsins og almennings en á sama tíma byggt upp vörumerki. Markmið samfélagsábyrgðar fyrirtækja er að stuðla að sjálfbærri þróun. Samfélagsábyrgð getur snúið að mannréttindum, umhverfismálum, sanngjörnum starfsháttum, neytendamálum, heilsueflingu og samfélagslegri virkni og þróun. Hún felur í sér að fyrirtækið beri ábyrgð á áhrifum sínum á, fólk, samfélagið og umhverfið. Samfélagsábyrgð getur jafnframt skapað fyrirtækjum ný viðskiptatækifæri og búið okkur betra samfélag ef við lifum í sátt og samlyndi við náttúru og menn.

Eva Magnúsdóttir, stjórnendaráðgjafi  aðstoðar fyrirtæki við stefnumótun meðal annars í almannatengslum, markaðsmálum, áfallastjórnun og innleiðingu samfélagsábyrgðar.

160 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page