top of page
Search
  • Writer's pictureEva Magnúsdóttir

Skaftárhreppur mótar aðalskipulag í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Sveitarstjórn Skaftárhrepps ætlar að leggja áherslu á sjálfbærni, verndun náttúrunnar, framleiðni í atvinnulífinu með fjölbreyttum tækninýjungum og hvetja til nýsköpunar í þjónustu við ferðamenn. Sveitarstjórnarmenn vilja innleiða hugmyndafræði Kötlujarðvangs og Vatnajökulsþjóðgarðs auk þess sem áhugi er fyrir því að koma á fót þekkingarsetri um loftslagsmál. Menning og listir munu einkenna þekkingarsetrið þar sem það verður staðsett við hlið Erroseturs. Lögð verður áhersla á sjálfbærni í verðmætasköpun og endurvinnslu auk þess sem við viljum halda virðiskeðjunni í nærumhverfinu.“ segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps. Þessi atriði eru liður í stefnumótunarvinnu sveitarfélagsins sem unnin er í anda heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna. Stefnumótunin er liður í því að endurvinna aðalskipulag svæðisins. Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og stjórnendaráðgjafi hjá Podium leiðir stefnumótunarvinnuna og Margrét Ólafsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Landmótun leiðir aðalskipulagsvinnuna. „Árið 2000 settu sameinuðu þjóðirnar fram þúsaldarmarkmið til ársins 2015. Mikill árangur náðist og því var ákveðið að setja ný markmið til ársins 2030 og ná þau til allra ríkja heims. Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru 17 talsins með 169 undirmarkmiðum og ná þau bæði til alþjóðasamstarfs og innanríkismála. „Framsýn sveitarfélög eins og Skaftárhreppur sjá mikilvægi þess að sveitarfélög leggi sitt af mörkum. Skaftárhreppur er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem beinlínis tekur mið af heimsmarkmiðunum í aðalskipulagi sínu.“ segir Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Podium. Heimsmarkmiðin mynda jafnvægi á milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. En af hverju er Skaftárhreppur að vinna með heimsmarkmiðin? ,,Við stöndum frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og viljum taka þátt í að minnka þau áhrif. Við búum í ríki Vatnajökulsþjóðgarðs og Kötlujarðvangs þannig að okkar mikilvægasta verkefni er verndun náttúrunnar„ segir Eva Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps. Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin að forgangsraða 65 af 169 undirmarkmiðum við innleiðingu þeirra á Íslandi. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. „Það er mikilvægt að sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar taki höndum saman um að vinna í anda heimsmarkmiðanna. Við munum í umhverfisstefnu okkar og nýju aðalskipulagi taka mið af þessum mikilvægu markmiðum. Við höfum lagt áherslu á að fjölbreyttur hópur komi að vinnunni, sveitarstjórn, nefndarmenn og íbúar svæðisins og höfum greint hvaða verkefni brenna á sveitarfélaginu. Þeim verður síðan forgangsraðað eftir mikilvægi. “ segir Eva Björk. Skaftárhreppur varð til árið 1990 við sameiningu fimm hreppa; Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvalla-, Skaftártungu- og Álftavershrepps. Í dag eru íbúar Skaftárhrepps um 450 talsins og hefur aðeins farið fækkandi síðustu ár. Aðalatvinnuvegir svæðisins eru landbúnaður, ferðaþjónusta og fiskeldi.  Eini þéttbýliskjarninn í hreppnum er Kirkjubæjarklaustur, eða „Klaustur” eins og staðurinn er gjarnan nefndur í daglegu tali. Á Klaustri er stunduð verslun, margvísleg þjónusta og iðnaður.

38 views0 comments

Comments


bottom of page