top of page
Search
  • Writer's pictureEva Magnúsdóttir

Seltjarnarnesbær undirritar sáttmála um samfélagsábyrgð

Seltjarnarnesbær hefur með undirritun sáttmála Sameinuðu þjóðanna, Global Compact, um samfélagsábyrgð, tekið sér stöðu meðal fremstu bæjarfélaga í heimi og er fyrsta bæjarfélagið á Íslandi til að undirrita slíkan sáttmála. 21 íslenskir aðilar hafa nú undirritað yfirlýsingu þessa efnis en Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact.

Hugtakið ,,sjálfbær þróun“ er íslensk þýðing á enska orðasambandinu ,,sustainable development“ og er í stuttu máli viðleitni til að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Stjórnendur Seltjarnarnesbæjar hafa á liðnum árum lagt áherslu á samfélagslega ábyrgð og hafa ákvarðanir bæjarstjórnar tekið mið af því. Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur til að mynda verið meðvituð um ábyrgð á umhverfi sínu hvort sem það varðar mannauð eða umhverfi. Ennfremur vex þeim sjónarmiðum ásmegin á meðal bæjarbúa að taka beri samfélagsábyrgð föstum tökum og vinna eigi markvisst að innleiðingu góðra stjórnarhátta í þeim anda. Ábyrg innkaupastefna er eitt dæmið um slíka samfélagslega ábyrgð. ,,Við stefnum að því að Seltjarnarnes verði í fremstu röð meðal vistvænna sveitarfélaga á Íslandi. Siðferðileg rök hníga að því að sveitarfélögum beri að græða þau spor sem þau setja á samfélagið og umhverfi þess. Samfélagsábyrgð snertir alla þætti mannlífsins og snýr að öllum grunninum í starfsháttum sveitarfélagsins. “ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.

,,Árlegar greiningar á meðal starfsmanna og íbúa hafa sýnt að starfsmenn okkar eru ánægðir í starfi og að íbúarnir telja bæinn sinn vera fjölskylduvænt samfélag.  Þessar jákvæðu niðurstöður mega hins vegar ekki verða okkur yfirvarp þannig að við sláum slöku við. Þvert á móti þurfum við að setja okkur ný og metnaðarfull markmið og því taldi bæjarstjórn Seltjarnarness ástæðu til að skerpa á stefnumótuninni. Með verkefninu um samfélagsábyrgð vilja stjórnendur bæjarins enn auka á ánægju starfsmanna og íbúa og færast nær sjálfbærri þróun. Þau verkefni sem hér eru mörkuð eru aðeins upphafið að nýrri vegferð. “

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð hefur tíu viðmið sem 9000 fyrirtæki og 4000 félög hafa heitið að virða. Þar með gefa þau fyrirheit að þau muni í stefnumótun sinni og starfsemi fylgja alþjóðlegum sáttmálum Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnuvernd, sjálfbært umhverfi og heiðarlega starfshætti. Jafnframt að þau vinni hver fyrir sig og í samstarfi að félagslegum markmiðum í anda Sameinuðu þjóðanna.

Mynd frá vinstri: Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Podium ehf. sem sér um vinnu við Global Compact viðmiðin, Árni Einarsson, forseti bæjarstjórnar, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar ásamt Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist fyrst á visir.is, sjá hér.

8 views0 comments

Comments


bottom of page