Plánetan okkar stendur frammi fyrir miklum efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum áskorunum. Til þess að takast á við þær áskoranir þá sameinuðust ríki heims um forgangsmálefni fyrir heiminn til þess að vinna að til ársins 2030, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Nýlega var gefin út skýrsla sem metur árangur 100 þjóða innan OECD við innleiðingu heimsmarkmiðanna. Velmegunareyjan Ísland vermir þar 26. sætið með skorið 77,52 af 100 og erum við eftirbátar allra hinna Norðurlandanna sem tróna á toppnum.
Við náum einungis sjö heimsmarkmiðum af sautján að fullu en önnur fela í sér marktækar og meiriháttar áskoranir auk þess sem mælingar eru ekki alltaf til staðar. Við höfum sérstaklega mikið verk að vinna í heimsmarkmiðum 12, 13 og 15. Þegar heimsmarkmið 12 er skoðað vantar mest upp á hjá okkur að minnka úrgang, og losun frá framleiðslu og innflutningi auk þess sem óflokkaður úrgangur hjá sveitarfélögum er ennþá of mikill. Hvað varðar aðgerðir gegn loftslagsbeytingum, heimsmarkmið 13, þá er losun gróðurhúsalofttegunda frá orku og innflutningi mest frá iðnaði og efnanotkun en þar á eftir kemur losun frá samgöngum á landi, landbúnaði og fiskveiðum. Þar að auki þurfum við að huga að því að sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni en það er mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun. Til þess að það takist þarf að grípa til ýmissa aðgerða til að vernda náttúruna og varast gróðureyðingu sem hefur verið mikið vandamál. Við þurfum að fara að líta á innleiðingu heimsmarkmiðanna sem tækifæri til að gera betur. Það gefast til dæmis ótal tækifæri til fjárfestinga í nýsköpun tengdri hringrásarhagkerfinu, grænum skuldabréfum og annarri grænni starfsemi. Í stað þess að urða þurfum við að finna leiðir til að endurnýta og endurhanna, - eins rusl er annars gull.
Innleiðing hjá sveitarfélögum
Hættum að tala og hefjum róttækar aðgerðir á öllum stigum samfélagsins, - við gætum leitað til frænda okkar á Norðurlöndunum þar sem þau lönd verma toppsætin í fyrrnendri úttekt. Norrænu sveitarfélögin hafa greint velgengniþætti við innleiðingu heimsmarkmiðanna. Að þeirra mati þarf að tryggja pólitískan stuðning við verkefnið og sameina alla að borðinu, heimamenn og stofnanir sveitarfélagsins. Mikilvægt er að mynda tengsl og leita eftir samstarfi við önnur sveitarfélög. Sameining sveitarfélaga felur því í sér mikið tækifæri. Eitt af því sem einnig skiptir máli er að viðurkenna að breytingar taki tíma. Mikilvægt er að innleiða heimsmarkmiðin í staðbundin verkefni. Síðan skiptir miðlunin miklu máli, að miðla með - sögum og sýna fram á betri framtíðarsýn.
Nokkur íslensk sveitarfélög hafa mótað stefnur sínar til framtíðar sem byggja á heims-markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar má nefna sveitarfélög eins og Skaftárhrepp, Sveitarfélagið Hornafjörð, Flóahrepp og Kópavog auk þess sem Mosfellsbær hefur innleitt heimsmarkmiðin í umhverfisstefnu sína. Þessi sveitarfélög eru mislangt komin í innleiðingunni en sum eru þegar byrjuð á því að móta undirstefnur í anda heimsmarkmiðanna.
Áttaviti Sameinuðu þjóðanna fyrir fyrirtækin
Sameinuðu þjóðirnar gáfu út leiðbeiningar, áttavita, til að fara eftir við innleiðingu heimsmarkmiðanna hjá fyrirtækjum. Hlutverk áttavitans er að leiðbeina fyrirtækjum hvernig þau geta aðlagað stefnu sína og mælingar til þess að halda utanum framlag þeirra til heimsmarkmiðanna. Skrefin eru eftirfarandi:
1. Að skilja heimsmarkmiðin.
2. Að skilgreina forgangsröðun og að grípa mikilvægustu áhrifin á virðiskeðjuna.
3. Að setja sér markmið.
4. Að samþætta sjálfbærni inn í kjarnastarfsemi og stefnu og innleiða markmið.
5. Að miðla árangrinum af sjálfbærri starfsemi.
Við skulum takast á við þetta saman í öllum kimum samfélagsins, aðferðafræðin er til staðar. Fyrirtæki og sveitarfélög verða að styða íslensk stjórnvöld í að leysa þetta stærsta verkefni sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Það er ekki í boði að gera ekki neitt og heimsmarkmiðin vísa okkur veginn að betri heimi!
Eva Magnúsdóttir, eigandi og ráðgjafi hjá Podium ehf.
Greinin birtist fyrst í september fréttabréfi Festu
Comments