Ég óska öllum sveitarfélögum til hamingju með nýjar sveitarstjórnir og þann kraft sem losnar úr læðingi. Með nýju fólki blása ferskir vindar og vona ég að vindar samfélagsábyrgðar leiki við sem flesta. Ég skora á nýjar sveitarstjórnir að setja sér virka stefnu í samfélagsábyrgð því verkefni þeirra er að skapa ábyrgara umhverfi fyrir fyrirtæki og íbúa.Markmið samfélagsábyrgðar er að stuðla að sjálfbærri þróun en rekstraraðilar eiga samkvæmt því að bera ábyrgð á áhrifum sínum á fólk, samfélagið og umhverfið. Fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið þurfa saman að finna taktinn – það er fátt verra en að sjá tangódansara sem dansa eftir sitt hvorum taktinum og jafnvel eftir sitt hvoru laginu. Prófið að sjá það fyrir ykkur!Leiðin að samfélagsstefnu liggur í gegnum heildarstefnumótun, hún þarf að innleiðast í gildi og menningu. Samfélagsstefnan getur skapað ný tækifæri, aukið nýsköpun og styrkt samkeppnishæfni, aukið tryggð og framlegð auk minni sóunar. Rúmlega 20 íslensk fyrirtæki og eitt sveitarfélag (Seltjarnarnesbær) hafa tekið upp alþjóðlega mælikvarða um samfélagsábyrgð eftir Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er fjallað um tíu alþjóleg viðmið sem skiptast í fjóra flokka; mannréttindi, vinnumarkaðsmál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Tæplega tíu þúsund fyrirtæki hafa skrifað undir Global Compact í heiminum í 164 löndum.Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru víðtækustu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um. Með markmiðunum er stefnt að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030. Heimsmarkmiðin mynda jafnvægi á milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Báðar leiðir eru góðar.Ég er svo bjartsýn að telja að Ísland geti orðið fyrirmyndarsamfélag þar sem fyrirtæki og opinberir aðilar taki fulla ábyrgð á áhrifum sínum á samfélagið. Að vakna upp við vondan draum 2030 er of seint.
Eva Magnúsdóttir stjórnendaráðgjafi
Greinin birtist fyrst á visir.is 19.6.2018, sjá hér.
Commenti