top of page
Search
  • Writer's pictureEva Magnúsdóttir

Armani og Gucci í boði íslenska ríkisins

Birtist í Markaðnum 17.02.2016


Viðskiptaþing var viðburðaríkt og áhugavert fyrir íslenskt viðskiptalíf og verkefnin ærin. Ég vil minnast á tvennt í framhaldi þingsins en það eru samkeppnisraskanir af völdum ríkisins og fjöldi ríkisstofnana. Samkeppnisraskanir hins opinbera hafa neikvæð áhrif á drifkrafta framleiðni og nauðsynlegt er að minnka umsvif þess. Ríkið er í beinni og óbeinni samkeppni við einkaaðila auk þess sem ríkiseinokun er á ákveðinni starfsemi. Mörg íslensk fyrirtæki komust í gegnum kreppuna með því að útvista starfsemi sem ekki féll undir kjarnastarfsemi þeirra og lækkuðu þannig fastan kostnað. Rekstur Íslands­pósts, ÁTVR, Ríkisútvarpsins, Sorpu og Fríhafnarinnar telst seint til kjarnastarfsemi og annars konar rekstrarform hentar þessum verkefnum betur. Það mætti einnig skoða mennta- og heilbrigðismál betur. Nærtækt dæmi um einkarekstur í heilbrigðismálum er glæsileg þjónusta í Klínikinni. Ég hef einnig trú á því að íslenskir kaupmenn myndu rúlla því upp að selja Armani og Gucci í Keflavík.

Heildarstefnumótun

Nú er tækifæri til heildarstefnumótunar í kjölfar laga um opinber fjármál en markmið þeirra er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Stefnumótunin þarf að fela í sér markmið um að fækka og hagræða í ríkisrekstri m.a. með því að færa verkþætti til viðskiptalífsins. Smáþjóðin Ísland rekur 182 ríkisstofnanir eða eina ríkisstofnun á hverja tæplega 2.000 íbúa landsins. Viðskiptaráð lagði 2015 fram 30 tillögur að fækkun ríkisstofnana með fjórum tegundum aðgerða: samrekstri, faglegum sameiningum, hreinum sameiningum og aflagningu starfsemi eða fækkun niður í 70 ríkisstofnanir. Þá vinnu þarf að nýta. Skattfé er betur varið til aukinnar menntunar, heilbrigðisþjónustu, forvarna og annarra nauðsynlegra innviða. Breytingar boða betri tíma og blóm í haga. Við eigum að nýta þá frábæru vinnu sem helstu sérfræðingar í íslensku viðskiptalífi færa okkur. Það eru jákvæðar breytingar í stjórn Viðskiptaráðs, nýr formaður, Katrín Olga Jóhannesdóttir, er fyrsta konan í 99 ára sögu ráðsins. Hún tekur við góðu starfi úr hendi Hreggviðs Jónssonar og óska ég henni innilega til hamingju. Hún ber kyndil framtíðar og ég er bjartsýn á að með henni komi jákvæðar breytingar í jafnréttissögu landsins.

Birtist í Frjálsri verslun 2015.

2 views0 comments

Comentários


bottom of page