Flest öll erum við meðvituð um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, - við lesum daglega um skógarelda, flóð og tíð mannslát vegna hitabylgja. Mörgum okkar finnst viðbrögð heimsins við þessari vá alls ekki nægilega hröð. Þó er búið að vinna mikla vinnu í að aðlaga regluverkið að sjálfbærari framtíð, ríkisstjórnir hafa sett sér stefnu og fyrirtækin lagt sitt af mörkum. En það er ekki nóg því það eru ærin verkefni framundan hjá íslenskum fyrirtækjum í að innleiða löggjöf Evrópusambandsins. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið því nýjar reglur kalla á nýja staðla sem taka mun tíma að innleiða.
En aðeins í sögulega samhengið: Evrópusambandið kynnti svokallaðan Grænan sáttmála árið 2019 og er markmið hans að leiða hagkerfi Evrópu að því að verða fyrsta loftslagshlutlausa hagkerfið. Nátengt honum, heimsmarkmiðunum og Parísarsáttmálanum var aðgerðaáætlun um fjármögnun sjálfbærs vaxtar (e. Action Plan: Financing Sustainable Growth – COM 2018-97). Sú áætlun var uppfærð árið 2021 (e. Strategy for Financing the Transition to a Sustainable Economy – COM 2021-390).
Eftirfarandi lykilreglugerðir ESB eru hluti af aðgerðaráætlun sambandsins um fjármögnun sjálfbærs vaxtar:
A. EU Taxonomy – Reglugerð um flokkunarkerfi fyrir sjálfbæran rekstur fyrirtækja
B. SFDR – Reglugerð um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu
C. CSRD – Reglur um form og efni sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja og fjárfesta
D. EUGBS – Rammi fyrir útgáfu grænna skuldabréfa
E. EU Climate Benchmarks Regulation – Reglugerð um sjálfbær fjárhagsleg viðmið
F. UCITS, MiFID, AIFMD – breytingar á þremur tilskipunum um samþættingu sjálfbærnisjónarmiða við fjárfestingaráðgjöf og rekstur sjóða
Hér verður sérstaklega fjallað um flokkunarkerfi ESB (EU Taxonomy). Flokkunarreglugerð ESB skilgreinir hvað telst umhverfislega sjálfbær starfsemi fyrirtækja. Sett hafa verið viðmið sem skilgreina að hvaða marki atvinnustarfsemi telst umhverfislega sjálfbær og hversu sjálfbær rekstur fyrirtækja er heilt yfir. Þessi atriði eru mæld sem hlutfall veltu, fjárfestingarútgjalda eða rekstrarkostnaðar. Reglugerðin gildir m.a. um stór fyrirtæki sem og stofnanafjárfesta eins og verðbréfasjóði, banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði og er liður í því að vinna gegn grænþvotti.
Markmið ESB um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 skal meðal annars náð með flokkunarkerfinu og er það brýnasta aðgerðin í aðgerðaáætlun ESB á sviði sjálfbærra fjármála.
Umhverfismarkmiðin eru sex
1. Mildun loftslagsbreytinga
2. Aðlögun að loftslagsbreytingum
3. Sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda
4. Umbreyting yfir í hringrásarhagkerfi
5. Mengunarvarnir og eftirlit
6. Verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa
Til þess að starfsemi geti talist umhverfislega sjálfbær þarf hún að stuðla verulega að einu eða fleiri þessara umhverfismarkmiða. Jafnframt má starfsemin ekki valda umtalsverðu tjóni á öðrum umhverfismarkmiðum. Þá skal hún uppfylla tæknileg matsviðmið sem koma fram í „framseldum reglugerðum“ sem settar eru á grundvelli flokkunarreglugerðarinnar. Auk þess er gerð krafa um lágmarksverndarráðstafanir. Engin atvinnustarfsemi verði talin umhverfissjálfbær án þess að virtar séu reglur um stjórnunarhætti fyrirtækja, mannréttindi og önnur félagsleg réttindi.
Eva Magnúsdóttir, sjálfbærni- og stjórnendaráðgjafi hjá Podium.
Byggt m.a. á upplýsingum frá Festu miðstöð um sjálfbærni.
Comments